Tilvalið fyrir fólk sem þolir ekki hálfar krukkur af sósum inni í ísskáp.
Og vill klára þær og halda lífinu áfram. Ok? “Hálfkláraðar sósukrukkur í ísskáp fólk” – þið vitið hver þið eruð!
Mig grunar að margir kaupi sósur sem “passa með” þessu eða hinu, en gleyma svo að nota þær eða telja að þær passi ekki í öðru samhengi. Þar sem ég þoli ekki matarsóun þá er sjaldan hætta á slíku hér á bæ. Það má nota flest og skipta út fyrir annað hráefni ef ímyndunaraflið er notað aðeins.
Mangóchutney var sem sé sósuafgangur kvöldsins.
Kjúklingabringurnar tvær sem lentu í frystinum hér í síðustu viku léku stórt hlutverk.
Þetta varð niðurstaðan og hún var fljótleg og einföld.
Að þessu sinni fór á pönnuna….
1 laukur, 1 gul paprika, smá olía og smá sjávarsalt…
Við bættust…
2 kjúklingabringur
3 vænar teskeiðar túrmerik
1 nett teskeið garam masala
Smá hvítlaukssalt, malaður pipar – bæði svartur og hvítur
Fljótlega á eftir fór restin af mangó chutney krukkunni útí.
Sirka 4 matskeiðar.
Og ögn af vatni – svona 150 ml eða svo. Og þetta fékk að malla…
Og endaði svona…á tortillum, með salati og grísku jógúrti af því það var til en ekki sýrður rjómi. Mjög einfalt mál oft á tíðum að nota gríska jógúrt í staðinn fyrir sýrðan rjóma þar sem passar.
Tók líklega korter allt í allt að henda þessu saman og allir sáttir.
Tilvalið að gera í meira magni og sjóða hrísgrjón með fyrir þá sem vilja og nenna;)
Verði ykkur að góðu!:)