Ég hef stundum minnst á það hvað ég eigi erfitt með mig þegar ég sé fiskrétti með osti. Fisk og ost saman á disk í hverju formi sem er. Ég get það ekki. Það sama á við um tómata. Hráa tómata það er – eldaðir tómatar hins vegar…
Það er dálítið margar uppskriftir lúðu á síðunni minni og nú bætist ein í hópinn. Eða kannski frekar kartöfluuppskrift. Sem passaði vel með lúðunni og eflaust mörgu öðru.
Þetta fór í eldfasta fatið og inn í ofn….
Kartöflur, tómatar, ólífur, ólífuolía, smá vatn (þægilegra að þrífa fatið á eftir ef það er smá vatn í því líka;)….smjör, hvítlaukssalt, paprikukrydd…
Sett á 200-220 gráður í ofn í tæpan klukkutíma – hrært einu sinni eða tvisvar á leiðinni að markmiðinu. Hækkað eða lækkað ef þarf.
Ólífuolía, sítrónusafi, sítrónusneiðar, sjávarsalt, hvítur og svartur pipar og smjör…og pannan hituð vel…
Lúðan á pönnuna – snúið við eftir 4-5 mínútur á hæsta og lokið sett á. Pannan hrist, smjörinu ausið yfir lúðuna, lækkað undir pönnunni – hvað sem lúðan segir ykkur að gera – gerið það.
Ég hef ekki trú á hárnákvæmum tímatökum eða hitastigum enda oft lítið að marka slíkt. Allavega í tilfellum sem þessum – misþykk lúðustykki, misheitar hellur….
Þegar ég var að læra matreiðslu svaraði einn af kennurunum iðulega þegar nemendur spurðu hvenær rétturinn væri tilbúinn – “when it´s done it´s done – don´t ask stupid questions” og setti upp frekar reiðan svip.
Það fer ekki framhjá neinum þegar lúðan er til og það er allt í lagi að stinga bara gafflinum í stykkið og tékka. Spyrja lúðuna….
En að kartöflunum…
Mjög passlegt og bara skynsamlegt að henda þeim yfir fiskinn áður en maturinn er borinn fram. Sparar pláss á borðinu og hægt að setja eldfasta fatið strax í vaskinn. Auðveldara að þrífa og það allt. Allavega þangað til komin eru sjálfuppvaskandi eldföst mót og leirtau. Væri eiginlega meira til í það en sjálfkeyrandi bíla.
Þetta er réttur sem má hvort heldur hafa hversdags eða í matarboði án mikillar fyrirhafnar.