Allt byrjaði þetta á kartöflunum.
Þeim var fleygt í fat, smávegis af vatni bætt við (100 ml eða svo), sletta af ólífuolíu, væn handfyllu af ferskri salvíu, smjör og nóg af því, ögn af sjávarsalti….og inn í sjóðheitan ofninn – 220-250 gráður.
Hrært í fatinu ef fólk man ( einu sinni eða tvisvar – allavega kíkt til að athuga hvort allt sé ekki “undir kontrol” í ofninum) en annars er ekkert mikið verið að skipta sér af þeim. Þær geta vel dundað sér sjálfar án mikils eftirlits.
Það er líka nóg annað að stússa meðan þær verða tilbúnar og salvían stökk.
Ég nota salvíu mikið og finnst hún vanmetin kryddjurt.
Pasta með smjörsteiktri salvíu er með því einfaldara sem hægt er að gera. Salvía og kartöflur – frábært par. Salvía og svínakjöt. Ekki spurning….salvía, svínakjöt og kartöflur…uh…já!
Ef þið leitið eftir orðinu “salvía” hér neðar á síðunnu – þá finnið þið margar margar uppskriftir….
Fjórar fagrar svínakótilettur….
Megnið af fitunni skorið burt – smekksatriði vissulega hversu mikið….
Og marineringin – einföld og góð – hlutföllin voru nokkurn veginn svona.
Börkur og safi af 2 stórum appelsínum – leyfði “kjötinu” af appelsínunum að fljóta með,þannig að það voru appelsínubitar í sósunni sem gaf góða áferð.
2 msk þurrkað rósmarín
2 msk þurrkað timían
2 tsk hvítlaukssalt
3 msk hunang
2 msk hvítvínsedik
Nýmalaður hvítur pipar og ögn af sjávarsalti
Leyfði þeim að hvíla sig í sirka klukkutíma á borðinu til að kynnast appelsínunum og kryddunum aðeins betur – það gaf kartöflunum líka tækifæri á að verða tilbúnar. Steikingin sjálf hófst svo þegar kartöflurnar voru farnar að kalla á mig úr ofninum.