Þetta einfalda en góða pasta tekur smátíma en samt ekki. Undirbúningurinn tekur enga stund, þetta eldar sig að mestu sjálft en það er ágætt að byrja að huga að matnum sirka 2-3 tímum áður en hann á að verða tilbúinn. Það er hægt að gera ýmislegt skemmtilegt á meðan.
Það þarf sem sé lítið að standa yfir pottunum og hræra, en þeim mun meiri tíma í ofni sem hægt er að nota til að gera eitthvað allt annað. Og eins og svo oft áður, byrjaði þetta ekki með neinu plani….
Töluvert magn af tómötum var hér á borðinu og sumir voru orðnir ansi lífsleiðir. Vorkenndi þeim smá en sagði þeim að óttast ekki, því það væri ekki fræðilegur að ég færi að henda þeim – í nokkuð annað en eldfast mót það er.
Hefði paprikan ekki komið í ljós, hefði einfaldlega verið hægt að láta tómatana hægelduðu duga með pastanu ásamt parmesan.
Það gerist eitthvað magnað þegar heill her af tómötum fær smá olíu, salt og sykur og nær að slaka á í heitum ofni um stund.
Þeir fengu sem sé slettu af ólífuolíu, ögn af sjávarsalti og ögn af sykri með sér inn í ofninn. Það dóluðu þeir sér hamingjusamlega í rúma tvo klukkutíma á sirka 150 gráðum.
Þessar paprikur voru alveg þokkalega hamingjusamar en samt dálítið umkomulausar í ísskápnum. Þegar tómatarnir komu út skelltu þær sér inn í ofninn og hitinn fór í 250 gráður.
Tómatarnir fengu þá frábært tækifæri til hvíldar og slökunar, því hefðu þeir lent á pönnunni strax eftir ofnvistina hefði þeir að sjálfsögðu orðið töluvert maukaðari og þar af leiðandi allt önnur áferð á þeim.
Sneri paprikunum við einu sinni á meðan á ofntímanum stóð – ætli það hafi ekki verið um hálftími sem dugði þeim til að verða svona….
…sem var nákvæmlega eins og ég vildi hafa þær. Þeim var alveg svakalega heitt – eðlilega!
Í sirka korter fengu þær að jafna sig undir disk sem ég setti yfir fatið. Það hjálpar til við að losa hýðið af að leyfa þeim að svitna aðeins vel vörðum á borðinu áður en afhýðing hefst. Auðvitað er hægt að dútla við að setja plastfilmu yfir en ef þið finnið bretti, disk eða hvað sem er til að skella yfir þá þjónar það sama tilgangi. Sparar líka plastfilmuna og slagsmálin sem maður lendir oft í við að finna endann á henni. Plastfilmur og límbönd. Ekki á allra færi og þarfnast oft töluverðrar þolinmæði….
Við tók afhýðing og fræhreinsun og smá tilskurður. Og enn ekkert plan! Annað en það að pastað fór í pottinn.
Spáð var í að ná í töfrasprotann og henda saman einfaldri en góðri pastasósu eins og oft áður. Kannski setja smá rjómaslettu saman við? Eða vodka?
Æ….var ekki í stuði þannig að áður en ég gerði það, leit ég aftur í ísskápinn og fann slatta af spínati….smávegis af hvítlauk…og saman fór smátt saxaður hvítlaukur, þrjár vænar lúkur af spínati, væn smjörklípa og malaður chillipipar á pönnuna.
Þegar spínatið hafði visnað all verulega á pönnuna eins og vill verða, duttu tómatarnir og paprika útí og hrært var í öllu saman sirka tvisvar svo tómatarnir færu nú ekki í mauk.
Nýrifinn parmesan, ögn af chillipipar og þá er hægt að kalla “matur”!
Verði ykkur að góðu!:)