Það gengur ekki alltaf jafn vel að skipuleggja daginn. Spáið í allri spennunni sem maður færi á mis við ef allir í kringum mann væru skipulagðir og kynnu á klukku og ekkert óvænt kæmi uppá? Vá bara….
Tek það fram að þetta er kaldhæðni.
Mér skilst að hún skiljist ekki alltaf á internetinu og ég finn merkið fyrir hana ekki á lyklaborðinu þrátt fyrir að hafa eytt sirka jafn löngum tíma í leit að því og eldamennskan tók (hversu mikil kaldhæðni er það!?) , þannig að….hér er mynd og linkur á myndinni. Ok? Nú fer alveg að koma að uppskritinni….
Þegar sms-ið “Það er æfing á eftir” kemur, þú ert númer 21 í röð á kassanum í búðinni með 5 hluti og allir hinir með fullar körfur og helmingurinn af kössunum eru bilaðir.
Þá er best að henda frá sér körfunni og rjúka heim – það hlýtur eitthvað að vera til?
Fyrir utan svínalundirnar sem ég kippti með á leiðinni heim og áttu að verða allt öðruvísi, en kom þó ekki að sök því þetta svínvirkaði. Þetta var ekki kaldhæðni heldur aulahúmor. Það hlýtur að vera til merki fyrir hann líka. Það hlýtur að vera…
En að svínalundunum…loksins….allt þetta blaður….bara til að sleppa við uppvaskið. Fussum svei….
Það eru engin hlutföll og ég eldaði alltof mikið. Sem er í fínu lagi – þá er kominn grunnurinn að rétti morgundagsins, hver svo sem hann verður.
Kartöflur+2-3 matskeiðar andfita+sletta af vatni+smá sjávarsalt=> ofn á hæsta hita þar til síðar…..
Hvítlaukur eða þrír – toppar skornir af-smá ólífuolía og sjávarsalt. Pakkað inn í álpappír. Hent í ofninn með kartöflunum. Bara af því það hentar. Ekki af því þeim muni leiðast.
Nú er komið að svínalundunum. Loksins.
Keypti aðeins of mikið…..ætli þetta séu ekki um 1,2 kg hér á ferð.
Hvað var ég að spá?
Ein blóðappelsína, ein sítróna, eitt lime – börkur og safi.
Ögn af andafitu – ólífuolíu ef vill – sjávarsalt, hvítur pipar, chilli….allt í fat…svínalundir í fatið og leyft að marinerast.
Bíða eins og lengi og hægt er – yfir nótt væri örugglega snilld en 20-30 mínútur virkuðu líka alveg.
Þegar klukkan er sirka korter (eða tuttugu) í kartöflur er passlegt lækka ofninn í 160 gráður en hita pönnuna vel, taka sem mest af marineringunni af lundunum og skella þeim á pönnuna. Steikja ögn á öllum hliðum og skella lundunum því næst ofan á fatið með kartöflunum. Og aftur inn í ofn.
Bíða rólega í korter eða svo – kannski 20 – eftir því hversu þykkar lundirnar eru og huga að sósunni. Taka þá minnstu út þegar hún öskrar “tilbúin!” og leyfa henni að hvíla sig undir álpappír meðan hún bíður eftir hinum. Osfrv.
Það sem ekki var til:
Rjómi
Hveiti (grínlaust – engin kaldhæðni hér á ferð)
Ferskt rósmarín
Svínakraftur í neinu formi
Það sem var til:
Mjólk
Maizena mjöl
Kjúklingakraftur (teningar) – en þeir koma oft að gagni og eru fjölhæfari en flestir ásamt grænmetiskrafti vissulega.
Þurrkað rósmarín (af hverju veit ég ekki – hver var að elda hérna????)
Marineringin fór á pönnuna, maizena mjöli skellt í krukku og köldu vatni með. Og hrisst. Og hellt á pönnuna. Og hrært. Og mjólk. Og kjúklingakraftur. Þurrkað rósmarín? Ok…smá af því og smakkað til – bara ansi fín sósa sko!;)
Hlutföllin eru nokkuð á huldu – við skulum segja að það hafi verið sirka hálfur líter af mjólk, tveir teningar af kjúklingakrafti, 3-4 msk af maizena mjöli og 100 ml af vatni. Og marineringin. Og safinn sem kom úr kartöflufatinu þarna fyrir rest – um að gera að nota hann enda alltaf smá kraftur sem fer úr kjötinu og í fatið.
Best að smakka sig bara áfram og bæta frekar við ef þarf.
Mynd af lokaniðustöðu hér efst – sósu og öllu. Allt í allt tók þetta um 45 mínútur eða þar um bil. Og það var engin æfing. Ætli einhver annar sé búinn að vaska upp? Best að athuga…..
Verði ykkur að góðu!:)