Þetta hófst allt á kássu hér á þriðjudaginn. Eitt af því fáa af viti sem eiginmaðurinn kom með í búið sem hægt er að setja á disk – uppskriftin það er. Man ekki alveg hvernig upphaflega útgáfan er – en hún er nokkurn veginn svona:
1 kg nautahakk
2 laukar
3-4 hvítlauksrif
Tómatsósa (500 ml)
Sojasósa (300 ml)
Vatn(4-600 ml)
Madras karrí – mikið
Garam masala – aðeins minna
Kóríander – minnst
Salt og pipar óþarfi – enda nægilegt salt í sojasósunni.
Hlutföllin er mismunandi – eftir því hversu sölt sojasósan er til dæmis. Það má bæta við meiri sojasósu eða tómatsósu þegar líður á mallið – allt eftir smekk hvers og eins.
Kássan á að malla vel og lengi – í það minnsta tvo tíma.
Betri daginn eftir og enn betri þarnæsta. Eins og oft er með kássur. Og kryddunin – eftir smekk.
Við erum að tala um margar matskeiðar af madras karrí, sirka helmingi minna af garam masala og eitthvað af kóríander. Byrja smátt og bæta við – alltaf betra að bæta við en taka úr;)
Laukur skorinn smátt og hvítlaukurinn saxaður. Á pönnu með ögn af ólífuolíu.
Fljótlega á eftir fer hakkið á pönnuna, eitthvað af kryddunum fylgir fast á eftir og síðan sojasósa, tómatsósa og vatn.
Þessu er leyft að malla og malla þar til mesti vökvinn er uppgufaður. Hrært í þegar maður man og smakkað til.
Bætt við kryddum eftir smekk, tómatsósu ef þarf – eða soja (eru svo missaltar-hafið það í huga).
Með þessu eru borin fram soðin hrísgrjón, ristað kókosmjöl, bananar og mango chutney.
Tilvalið í hversdagslegt matarboð fyrir marga – eða þá í matinn fyrir fáa í marga daga og í mismunandi útfærslum eins og hér.
Á öðrum degi….
Hluti af kássunni settur á pönnu ásamt hrísgrjónum (um það bil helmingur og helmingur) – meiri tómatsósa saman við og restin úr mangó chutney krukkunni.
Hitað – inn í tortillur, olía og oregano ofaná – inn í funheitan ofn- smá salat og sýrður rjómi með.
Á þriðja degi verður þetta til – pasta með kássu og papriku. Og fullt af osti. Nei. Ég meina fullt af rifnum osti – grínlaust. Eða bara sleppa honum og kalla þetta pastarétt? Það má líka. Þetta eru bara uppástungur;)
Restin af restinni af kássunni á pönnu og um það bil jafn mikið af papriku. Frosinni þess vegna – við erum að reyna að spara tíma hér – ok? Og meiri tómatsósa. Og smá oregano eða jafnvel slatti!
Sjóða pasta og passa að það sé til FULLT af rifnum osti. Hann fer saman við og svo ofaná herlegheitin áður en í ofninn er haldið.
Eftir pastasuðu, malli mall á pönnu, helling af osti og 250 gráður þar til gullið er hægt að kalla “matur” á þriðja degi. Og ef heimilisfólk spyr “verður nokkuð kássa aftur á morgun?” – þá er það allt spurning….
Nei annars – það verður eitthvað annað. Kássan er frábær og sívinsæl á heimilinu. Tilvalin fyrir hóp fólks og um að gera að spara sér aðeins tímann í eldhúsinu með einni góðri “grunnkássu” sem hægt er að útfæra í þrjá daga og á ótal mismunandi vegu.
Eigum við ekki bara að segja þetta gott af kássu í bili? Held það!