Ég sá mest eftir að hafa sett restina af laxinum í ofninn…en…á morgun geri ég meira.
Og vonandi kominn meiri villtur lax í búðina. Ég á veiðistöng, en ég hef aldrei notað hana…úbbs…kannski kominn tími á það bara? Hef veitt og tókst vel og fannst það gaman. Þess vegna fékk ég veiðistöng í jólagjöf eitt árið og já…hún er hér inni í þvottahúsi. Veiðist víst ekki mikið á hana þar…
Ég er annars nýkomin heim úr árlegri Grikklandsdvöl þar sem nokkur fiskcarpaccio voru snædd. Túnfisk, mahi mahi, sverðfisk…
Fiskur á Grikklandi er matreiddur töluvert öðruvísi en við vorum að alast upp (eða ég allavega..) og það er mikil veisla þegar hann er borinn á borð, enda ekki sá lúxus fyrir hendi að labba út í næstu fiskbúð. Ég hef áður skrifað aðeins um þetta og það má finna hér.
Aðalmálið er auðvitað að fiskurinn sé ferskur og góður. Sem er yfirleitt ekki mikið mál hér á landi.
Það er best að flaka hann og vefja í plast, skella í frysti í 90 mín eða svo, þannig að auðveldara sé að skera hann. Skera hann í þunnar sneiðar og hafa “sósuna” tilbúna til að hella yfir þegar hann hefur verið skorinn og færður á disk.
Í þetta sinn fór í réttinn:
c.a.300 gr ferskur villtur lax
3 vænir vorlaukar – hvíti hlutinn
Smá salat til skrauts
Sósa/marinering:
1 lime – safi
1 rauður chilli – lítill
1 lítill biti engifer
1 hvítlauksrif
1-2 msk góð ólífuolía
Sjávarsalt og nýmalaður pipar – bæði hvítur og svartur
Chillipipar yfir allt
Sem sé – chili, hvítlaukur og engifer maukuðust hér í græjunni sem fylgdi töfrasprotanum. Má nota mortél líka eða saxa allt smátt. Limesafi og ólífuolía útí, smá sjáavaralt og pipar…síðan leyfði ég þessu að hanga á borðinu meðan fiskurinn fraus.
Þá hellti ég þessi í gegnum lítið sigti og því næst yfir þunnt (mjög mjög mjög þunnt) skorinn laxinn og inn í ísskáp með allt saman í 10-15 mínútur.
Vorlaukur yfir og salat og það má fara að kalla fólk að borðinu.
Tilvalinn forréttur eða léttur kvöldverður á sólríku sumarkvöldi. En eins og ég segi – gerið meira magn….ég veit að ég ætla að gera meira á morgun og kannski nota lúðu og kannski bæði lúðu og lax? En hey…það er á morgun. Nú er ég rétt búin að ná að henda inn þessari uppskrift og ég sé að það hefur einhver vaskað upp, þannig að tími á kvöldgöngu held ég bara. Ómögulegt að hanga inni á fallegu sumarkvöldi!