Skrollið niður fyrir uppskriftir. Ekki af makkarónum samt. Hana fáið þið aldrei. Ég endurtek…ALDREI!
Þetta varð skuggalega langt blogg miðað við mörg hér á síðunni, en aldrei þessu vant hef ég smá tíma…Ætti kannski að vera að taka til eða EITTHVAÐ…en það fer að gerast…það fer alveg að gerast…geisp….
Í ár er fyrsta árið síðan ég man eftir mér þar sem ég hef ekki verið að ganga frá mér með vinnu.
Margir hafa spurt mig um Hátíðarrauðkálið góða…rauðlaukinn í balsamedikinu…og makkarónurnar, “shortbreadið”…og fleira góðgæti… en í ár ákvað ég að taka mér frí frá slíku jólastússi og nota tímann til að hlaða batteríin, dytta að heimilinu og fleira sem sjaldan gefst tími til að sinna.
Þeir sem vinna hjá sjálfum sér vita uppá hár hvað ég á við.
Sjálfur á maður það til að vera sinn harðasti húsbóndi. Ég gaf sjálfri mér því langþráð frí frá alls kyns jólastússi í ár og þrátt fyrir samviskubit sem nagar í hvert sinn sem ég svara skilaboðum og tölvupóstum þar sem verið er að spyrja um rauðkál og fleira, hef ég það bara þokkalegt!
Jólatréð er meira að segja komið inn í stofu og bíður eftir að verða skreytt. Engir 12 – 14 tíma vinnudagar í ár þar sem komið er heim hrakinn og kaldur með deigslettur í hárinu, angandi af rauðlauk.
Ég er ekki búin að baka eina einustu smáköku. Engin piparkökuhús hafa verið bökuð og skreytt heldur, en það er búið að horfa á margar jólamyndir (misgóðar…), fara í göngutúra í kuldanum og eins hefur tíminn verið notaður til þess að bara…”vera”…
Og skreyta “smá”. Ekki of mikið samt – því það er kvöl að taka allt niður þegar að því kemur…
Missti mig aðeins í jólasnjónum. Eins og það sé ekki nóg af honum úti…
Þessi jólakúla var alltaf í miklu uppáhaldi en brotnaði því miður í fyrra….
Hausinn var límdur á vitringinn í rauðu skikkjunni með sérstöku “vitringalími” sem sjá má á myndinni og verður eftirleiðis kallað vitringalím á þessu heimili. Jesúbarnið sem týndist um árið hefur enn ekki fundist, en þess í stað fannst annað stærra (og hugsanlega betra?). Ég er ekki viss um hvað var fyrir ofan opið að klettinum þarna vinstra megin. Spurning um að föndra lítinn jólakrans og hengja upp…spreyja allt með jólasnjó…Kannski ekki “rétt” miðað við stað og stund fyrir…2019 árum, en hvaða máli skipta slík smáatriði… Lömbin voru…held ég…á þakinu. Þau höfðu dottið en voru fest með kennaratyggjói (af hverju heitir það kennaratyggjó?) þar sem vitringalímið þótti varanlegra og ég er ekki viss hvort þau ætli að vera á þakinu…
Jólin koma og fara hvernig sem þeim er háttað og bara tilfinningin að vita til þess að á Þorláksmessu verður ekki komið heim eftir 23 og þá byrjað á öllu jólastússi er ómetanleg.
Oft hef ég ekki náð að spá í jólagjöfum fyrr en á Aðfangadag og verið að skúra hér þegar jólin hringja inn. Það hefur liggur við verið normið. Stundum hef ég verið dregin af fjölskyldumeðlimum úr vinnu klukkan 14-15 á Aðfangadag sem hefur þótt komið nóg og eru jafnvel farnir að ókyrrast og velta því fyrir sér hvort það verði yfirleitt eitthvað í matinn – en vitandi þó að mér tekst að galdra fram ýmsar kræsingar með stuttum fyrirvara, þannig að örvænting þeirra hefur kannski jafnast út við þreytustig húsmóðurinnar
Hugur minn er hjá verslunarfólki fyrir þessi jól. Mig langar að biðja fólk um að skilja pirrið eftir úti í bíl þegar það dembir sér í jóla-maníu-innkaup og bara…reyna að vera “næs”. Það gildir reyndar alla daga ársins, en á þessum árstíma er það extra mikilvægt.
En nóg af vangaveltum um lífið og tilveruna!
Hér var lofað uppskriftum og hér koma þær:)
Í formi ljósmynda að þessu sinni. Smellti af úr bókinni minni Sultur allt árið sem kom út fyrir nokkrum árum. Einhver eintök eiga að vera til af henni, en Súpur allt árið er löngu uppseld því miður….Fæ ansi oft fyrirspurnir um hana, en eftir því sem ég best veit eiga að vera til eintök á bókasöfnum víða í það minnsta.
Uppskriftirnar eru mínar, en myndirnar tók Gunnar Sverrisson ljósmyndari.
Fyrst er það blessaður rauðlaukurinn…
Þá er það blessað rauðkálið…
Að lokum er hér fallegt lag í anda jólanna – heimagert – að sjálfsögðu.
Verði ykkur að góðu og munið að slaka á – jólin koma og fara, þrátt fyrir að allt sé ekki í toppstandi og það er ENGINN búinn að baka 10 sortir af smákökum, pakka inn öllum gjöfunum, þrífa bakaraofninn….eða allavega svakalega fáir og enginn sem ég þekki….