Svínalundir, hvítkál og epli

Þessar svínalundir urðu til hér um helgina.

Þær fengu að marinerast á meðan ég sinnti haustverkum í garðinum. Vonandi sprettur hér túlípanaakur með vorinu en ef ekki, þá var útiveran samt góð í fallegu haustveðri.

Er búin að vera duglegri í garðinum í sumar en áður – en við vitum öll af hverju það er!

Hvítlaukurinn var settur hér niður í vor en rósmarínið kom til mín frá góðri frænku hér í vikunni sem kom með eitt og annað gott og gaf mér og hefur gefið mér alls kyns góð ráð um ræktun. Bíð spennt eftir næsta vori og er með mikil plön….nema allt verði búið og ég komist til Grikklands? Vonandi bæði bara. Allavega!

Hér er hvítlaukirnn að spíra í vor – síðan fór hann út í garð og þar óx hann vel

Snúum okkur að matnum.

Mér leiðist alltof langt óþarfa bull á undan uppskriftum og læt hér staðar numið!:)

2-3 vænar svínalundir

1-2 sítrónur – safi og börkur

4-5 hvítlauksrif-smátt söxuð

5-6 msk ólífuolía

Rósmarín – vænn skammur af fersku (helst) saxaður smátt

Sjávarsalt, hvítur og svartur pipar

Allt sett í passlegt fat (eða poka).

Smjör og ólífuolía til steikingar og smá meira rósmarín á pönnuna…

Meðlæti:

1/2 stór hvítkálshaus

2 væn og græn epli

Lundirnar snyrtar til með beittum hníf – himnan fjarlægð það er að segja og síðan settar í fatið/pokann og leyft að marinerast í nokkra tíma. 5 – 6 tímar eru gott en má vel vera aðeins lengur eða yfir nótt. Passið að marineringin fari á allt kjötið – veltið lundunum úr henni og snúið ef þarf.

Hvítkálið fór í ofninn í sneiðum. Smá ólífuolía og sjávarsalt undir og yfir og nokkrar smjörklípur ofaná fyrir rest. Sneri því við einu sinni – sirka korter á hvorri hlið.

Eplin skorin og skræld og steikt úr vænni smjörklípu á sér pönnu. Helst koparpönnu ef þið eigið. Þau brúnast ansi vel og fallega á slíkri.

Þá eldum við lundirnar.

Smjör og ólífuolía á vel heita pönnu og steikt á öllum hliðum. Þá er hitinn lækkaður og lokinu skellt á pönnuna. Snúið við nokkrum sinnum (vegna óþolinmæði ekki síst) og þær “baðaðar” úr smjörinu/olíunni. Ekki verra að hafa bætt eins og tveim rósmaríngreinum á pönnuna þarna í upphafi til að fá enn meira bragð og lykt. Vissulega má líka setja þær í ofninn, en hvort tveggja virkar.

Það er erfitt að gefa tímasetningu – lundir eru svo misstórar/þykkar.

Farið bara eftir bestu vitund – en til vonar og vara erum við að tala um 25-30 mínútur.

Og svo bara….kalla á alla og skella matnum á borð. Kannski smá sinnep með. Já. Sinnep.

Verði ykkur að góðu!:)

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s