Rauðvínsrisotto með döðlum og möndlum & hægeldaðir lambaskankar

Það var nú ekki á planinu að setja inn uppskrift, en þetta var bara of gott…

Þetta byrjaði allt í gær þegar ég hoppaði inn í Kjöthöllina með ekkert plan, þegar ég hitti fyrir fjóra fagra lambaskanka sem laumuðu sér með mér heim. Ég var nokkuð viss að rauðvín myndi koma við sögu, en annars var lítið um plön. Hugsanlega yrði jú kartöflumús, jafnvel sellerírótamús….En svo var ég bara í svo miklu risotto stuði áðan að þetta varð niðurstaðan.

Þetta hófst á salti og pipar, smá olíu í pott og skankarnir steiktir á öllum hliðum og teknir úr pottinum og haldið heitum.

Því næst gerðist þetta….

Einn laukur, nokkrar gulrætur og smá sellerí útí pottinn (þannig hljóma margar góðar uppskriftar að frönskum hætti – hið ómissandi “miropix”). Því næst var það hvítlaukur (4-5 væn rif), síðan heil rauðvínsflaska, timían, rósmarín, lárviðarlauf (4-5 slík). Þá fóru 3-4 msk af tómatpúrru útí og loks kjötið. Fyllt upp með vatni og gleymt á hellunni í sirka 3 tíma.

Auðvitað saltað og piprað alla leið eftir þörfum.

Spólum nú áfram um þessa þrjá tíma…

Kjötið alveg við það að detta af beininu og engar kartöflur til. Nema litlar. Sem ég nennti ekki að skræla. Og engar sætar kartöflur eða annað. Hefði svo sem auðveldlega getað gert kartöflumús með skræling, en var í stuði fyrir risotto. Og öll góða sósan sem varð til í pottinum….ég gat ómögulega látið hana fara til spillis þannig að úr varð risotto.

Tók kjötið úr pottinum og hélt heitu, síðaði grænmeti og kryddjurtir frá sósunni og hóf risottogerð.

Tveir vænir skarlotslaukar og smá olía…smá salt…3-4 hvítlauksrif og því næst mjög væn smjörklípa.

Risottogrjón útí, hrært vel og grjónunum leyft að drekka í sig smjörið. Þá var rauðvínssósunni ausið í pottinn – jafnt og þétt – grjónunum leyft að drekka í sig vökvann og meiri bætt við….og loks þegar sósan/soðið var búið og grjónin enn nokkuð þyrst, var vatni bætt saman við.

Mér fannst eitthvað vanta. Eitthvað sætt. Ekki of sætt, en smá sætt. Ég fór að hugsa um kús kús og marókkóska matargerð. Þið sjáið – það var engin stefna. Þannig gerast oft bestu hlutirniar.

Ég fann döðlur – nokkrar ferskar og nokkrar þurrkaðar og fleygði út í. Saxaði þær aðeins, en ekkert of smátt. Og þar sem þetta stefndi nokkuð stjórnlaust í einhvers konar ítalskt-marókkóskt “fusion confusion” dæmi, fannst mér tilvalið að rista nokkrar möndlur og saxa og fleygja þarna með.

Og þetta bara virkaði! Og varð ferlega gott.

4 vænir lambaskankar

Ólífuolía, salt og pipar

1 laukur

3 gulrætur

1 sellerístilkur

4-5 hvítlauksrif

1 (ekkert alltof dýr) rauðvínsflaska

2-3 timíangreinar

2-3 rósmaríngreinar

4-5 lárviðarlauf

Vatn

Og leynihráefnið…tími….þrír þannig.

Þá er það risottoið:

2 shallotlaukur

3-4 hvítlauksrif

Olía

Væn smjörklípa (eigum við að segja…á milli 50 og 100 gr?)

Risottogrjón (svona kannski….100-150 grömm?)

Salt og pipar

Sósan/soðið af kjötinu (grænmetið sigtað frá)

Vatn

10 ferskar döðlur og 5-6 þurrkaðar (saxaðar gróft)

Handfylli af möndlum (ágætt að rista þær á þurri pönnu en ekkert nauðsynlegt svo sem)

Og þarna er lykilhráefnið þolinmæði.

Sem skilar árangri eftir sirka 20-25 mínútur af “hræreríi”.

Verði ykkur að góðu!:)

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s