Velkomin:)
Hér eru uppskriftir af því sem ég er að gera í eldhúsinu mínu svona dags daglega.
Allar uppskriftirnar eru þróaðar þar. Ég á heilan helling af matreiðslubókum sem ég er alltof löt við að kíkja í, enda finnst mér mikið meira gaman að búa uppskriftirnar til sjálf!
Ég lærði matreiðslu og bakstur við Cordon Bleu skólann í London,
sem er einn virtasti matreiðsluskóli heims.
Þar er frönsk matreiðsla í hávegum höfð, en hún er óneitanlega góður grunnur þegar kemur að flestri annarri matargerð.
Það er vissulega margt sem ég lærði þar sem ég hef lítinn áhuga á að gera hér í eldhúsinu heima.
Þrátt fyrir að eyða töluverðum tíma í eldhúsinu, er ég lítið í því að úrbeina kornhænur, elda svínahausa eða hamfletta ál ofan í fjölskylduna! Ekki nenni ég heldur að standa í því að gera sykur eða súkkulaðiskúlptúra ofaná kökurnar sem ég baka. Það bara á ekki við mig!
Þegar ég fer út í búð að versla, kaupi ég það sem mér líst best á hverju sinni.
Grænmeti og ávextir taka yfirleitt mikið pláss í körfunni hjá mér!
Það er auðvitað árstíðabundið hversu mikið framboð er og í hvaða gæðum, þannig að ef mér líst ekki á það þá kaupi ég það að sjálfsögðu ekki.
Ég vona að þú finnir hér eitt og annað gagnlegt.
Allt efni á síðunni er mitt eigið og ég bið ykkur vinsamlegast að virða það.
Það er frekar fúlt sjá uppskriftir birtast annars staðar undir öðru nafni og myndefni er að sjálfsögðu heldur ekki leyfilegt að afrita;)
Neðst á síðunni er hægt að leita eftir uppskriftum, þannig að ef ykkur vantar uppskrift að einhverju sérstöku, þá getið þið skellt því í leitina!
Ef það eru einhverjar spurningar, þá hikið ekki við að senda mér póst á sigurveig@matarkistan.is
Verði ykkur að góðu:)!!!