Bækurnar mínar

Súpur allt árið

Matarmikil súpa úr fersku grænmeti og bragðgóðu soði
yljar og nærir bæði sál og líkama.

Hér leiðir Sigurveig Káradóttir, matgæðingur og höfundur bókarinnar Sultur allt árið, lesendur um heim súpugerðar og gefur uppskriftir að kjarngóðu grænmetis- og kjötsoði. Uppskriftirnar eru fjölbreyttar og hér má finna strauma frá ýmsum heimshornum: Tælensk kókossúpa með rækjum, skelfisksúpa að spænskum hætti, salthnetusúpa með afrísku ívafi, marokkósk kjötsúpa og ítölsk fiskisúpa, svo fátt eitt sé talið.
Súpur allt árið er falleg bók með tuttugu og fimm girnilegum og nærandi súpuuppskriftum.
Ljósmyndir eftir Gunnar Sverrisson prýða bókina.

Sultur allt árið


Hér áður fyrr einskorðaðist sultugerð að mestu við haustið sem er uppskera berja og rabarbara.

Nú er öldin önnur og hér leiðir Sigurveig Káradóttir, matgæðingur og eigandi Matarkistunnar, okkur um heim sultugerðar þar sem hráefnið er fjölbreytt og hægt að sulta allan ársins hring. Henni verður allt úr öllu; hvort sem um er að ræða banana, gulrætur, gojiber, eða bláberin okkar góðu.

Í bókinni er ekki eingöngu að finna hinar hefðbundnu sultur heldur ýmislegt annað sem hentar nútímalegum og heilsusamlegum matarháttum.

Uppskriftirnar eru einfaldar og upplagðar til að kóróna aðalmáltíðina, brauðmetið eða kökuna. Einnig er sulta í fallegri krukku skemmtileg gjöf.

Hollt nesti heiman að

Hér eru á ferðinni um það bil 70 uppskriftir, hver annarri ljúffengari og hollari en að sama skapi einfaldar og nýstárlegar.

Við förum flest að heiman á morgnana, annaðhvort í skóla eða vinnu. Oft freistandi að grípa til skyndibita eða jafnvel sleppa því að næra sig þangað til heim er komið. Rannsóknir hafa þó sýnt að holl fæða sem neytt er reglulega hindrar blóðsykursfall og kemur í veg fyrir að við missum einbeitingu og verðum orkulaus.

Hér eru á ferðinni 70 uppskriftir, hver annarri ljúffengari og hollari, en að sama skapi einfaldar og nýstárlegar. Uppskriftunum fylgja fróðleiksmolar svo nestisgerðin verður bæði skemmtileg og lærdómsrík, ekki síst ef börnin eru höfð með í ráðum.

Þrír kvenskörungar standa á bak við bókina, þær Sigurveig Káradóttir, eigandi Matarkistunnar, Sigurrós Pálsdóttir, yfirmaður veitingadeildar hjá Manni lifandi og Grænum kosti og Margrét Gylfadóttir, matgæðingur og mannfræðingur.

Hér eru ýmsar uppástungur að hollu skólanesti, matarpökkum í vinnuna og loks er kafli um girnilegt nesti fyrir lautarferðir allan ársins hring.

Nesti að heiman er svo sannarlega hollara, ódýrara og bragðbetra en skyndibitar úr búðinni!

Leave a comment